Reglur

Reglur

Hlutverk Árnessjóðs er að taka við orlofsframlögum frá ríkissjóði og ráðstafa á þann hátt að sjóðfélagar megi njóta orlofs. Fjármunum sjóðsins skal verja til reksturs orlofshúsa á vegum sjóðsins, útleigu á þeim til sjóðsfélaga og orlofsstyrkja til sjóðsfélaga til að njóta orlofsgistinga vegna ferða hér á landi eða erlendis.

 

  

Úthlutunarreglur sjóðsins

Stjórn Árnessjóðsins

Samþykktir sjóðsins

 

 


 

 

Úthlutunarreglur fyrir Árnessjóð

 

1. Réttur sjóðsfélaga.
Aðild að Árnessjóði miðast við að greitt hafi verið til sjóðsins mánaðarlegt framlag í 6 mánuði sem miðast við 0,30% af heildarlaunum fyrir a.m.k. hálft starf. Fylgt er skrá fjármála- og efnahagsráðuneytisins þann 1. janúar og 1. júlí ár hvert yfir sjóðsfélaga skv. framanskráðu. Orlofspunktar eru að hámarki 12 á ári. Punktaávinnsla miðast eingöngu við greiðslu framlags. Orlofspunktar ávinnast ekki ef greiðslur til sjóðsins falla niður.

Fæðingarorlof. Sjóðsfélagi viðheldur óskertum úthlutunarrétti þó svo hann fari í lögbundið fæðingarorlof.

Lífeyrisþegar. Þeir sjóðsfélagar sem njóta fullra réttinda Árnessjóðs við töku lífeyris og hafa greitt framlag í sjóðinn í samtals 5 ár geta viðhaldið rétti sínum til að leigja orlofshús á vetrartíma á sömu kjörum og sjóðsfélagar með því að greiða svokallað ævigjald kr. 20.000. Óski fyrrum sjóðsfélagi aðildar þarf hann að senda umsókn til sjóðsins sem stjórn hans tekur þá fyrir.

2. Fyrirgreiðslur.
Fyrirgreiðslan (sbr.1.tölulið) felst í útleigu orlofshúsa eða greiðslu orlofsstyrks gegn framvísun reikninga. Félagsmenn geta þannig annað hvort leigt hús á sumartíma eða fengið greiddan orlofsstyrk. Upphæð orlofsstyrks er kr. 50.000 (lífeyrisþegar njóta ekki greiðslu orlofsstyrks).

Fyrirgreiðslan (sbr. 1.tölulið) felst í útleigu orlofshúsa eða greiðslu orlofsstyrks gegn framvísun reikninga. Félagsmenn geta þannig annað hvort leigt hús á sumartíma eða fengið greiddan orlofsstyrk. Upphæð orlofsstyrks er kr. 50.000 (lífeyrisþegar njóta ekki greiðslu orlofsstyrks).

Forsendur fyrir orlofsstyrk.
1. Reikningar verða að vera lögformlegir.
2. Þeir þurfa að bera nafn og kennitölu útgefandans eða að þeim fylgi kassakvittun.
3. Vera stílaðir á nafn og kennitölu sjóðsfélagans.
4. Fram þarf að koma inn á hvaða bankareikning styrkurinn skuli greiddur (númer banka, höfuðbókar og reiknings).
5. Beiðnir um styrkgreiðslur skulu hafa borist Árnessjóðnum, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Arnarhvoli við Lindargötu, 150 Reykjavík eigi síðar en 15. janúar ár hvert.

3. Útleiga orlofshúsa.
Útleiga orlofshúsa er annars vegar sumarleiga og hins vegar vetrarleiga.

Sumarleigan byggir á punktakerfi (punktaeign sjóðsfélaga) sjóðsins og greiðist með kreditkorti við bókun orlofshúsa á vef sjóðsins.
Vetrarleiga greiðist með kreditkorti við bókun orlofshúsa á vef sjóðsins.

Óheimilt er að leigja öðrum en sjóðsfélögum og með öllu er óheimilt að framleigja sumarhús sjóðsins.

4. Sumarleiga.
Sumartími er frá 1. júní til 31. ágúst. Sumarleigan er vikuleiga frá föstudegi til föstudags. Leigutíminn er frá kl. 16.00 en leigutaka ber að skila húsinu ekki síðar en kl. 12.00 á skiladegi. Sjóðsfélagi getur einungis fest eina leiguviku.

Sjóðsfélagar geta leigt bústað á bókunarvef sjóðsins: www.arnessjodur.is.

Útleiga byggist á punktafjölda félagsmanna, hún er punktastýrð þannig að félögum er raðað í flokka miðað við punktaeign þeirra. Þeir sem eiga flesta punkta ganga fyrir við úthlutun. Sæki fleiri en einn aðili um hús á sama tíma er horft til punktastöðu og lífaldurs.

Tilkynnt er um miðjan apríl ár hvert hvenær sumarúthlutun hefst.

5. Vetrarleiga.
Vetrartími er frá 1. september til 31. maí. Leigutími er stystur tvær nætur en lengstur sjö nætur á sama stað. Verð er auglýst í lok janúar.

Leigutími er frá kl. 16.00 en leigutaka ber að skila bústaðnum ekki síðar en kl. 12:00 á skiladegi.

Sjóðsfélagar geta leigt bústað á bókunarvef sjóðsins: www.arnessjodur.is.

6. Punktakerfi.
Upphaf punktatalningar er frá ársbyrjun 2009. Punktar safnast þannig að fyrir hvern heilan mánuð fæst 1 punktur Punktar reiknast fyrst eftir 6 mánuði í starfi og eru þeir reiknaðir 1. janúar og 1. júlí ár hvert. Punktar eru uppfærðir tvisvar sinnum á ári.

Frádráttur á punktum er með þeim hætti að fái sjóðsfélagi úthlutað sumarhúsi á sumartíma þá dragast frá punktainneign hans 12 punktar.

Á vetrartíma dragast ekki frá punktar.

7. Lyklar að hinu leigða.
Upplýsingar um afhendingu lykla að bústöðunum er að finna á leigukvittun.

8. Þegar upp koma vandamál.
Ef búnaður í bústað er ekki í samræmi við lýsingu er sjóðsfélagi beðinn um að láta viðkomandi umsjónarmann vita strax og mun hann leitast við að koma hlutunum í lag. Ef það tekst ekki er sjóðfélagi beðinn um að hafa samband við stjórn sjóðsins strax og dvöl lýkur.

9. Veikindi, óveður o.fl.
Ef veikindi koma í veg fyrir orlofsdvöl skal tilkynna það svo fljótt sem verða má. Einnig ef veður eða aðrar óviðráðanlegar ytri aðstæður svo sem ófærð, aðvaranir lögreglu eða Veðurstofu koma í veg fyrir orlofsdvöl.

Í slíkum tilvikum endurgreiðir sjóðurinn 80% leigugjaldsins og fellir niður punkta.

10. Umgengni, ábyrgð og skil.
Leigutaka ber að hafa kvittun fyrir leigunni til staðar á meðan á dvöl stendur. Leigutaki ber ábyrgð á umgengni um orlofshús, orlofssvæði svo og aðrar eigur sjóðsins. Verði tjón sem leigutaki hefur valdið skal hann bæta það eftir almennum reglum skaðabótarréttar og leiguréttar en áskilinn er réttur til að krefjast bóta sem nema þeim útgjöldum sem tjónið hefur bakað sjóðnum.

Óheimilt er að hafa hunda, ketti eða önnur gæludýr í bústöðunum. Leigutaka ber að skila bústað hreinum og í sama ástandi og hann tók við honum. Sé illa eða ekki þrifið áskilur sjóðurinn sér rétt til að hreingerningar á kostnað hlutaðeigandi leigutaka.

Árnessjóður, 30. mars 2015

 

Stjórn Árnessjóðs skipa:

Ásta Lára Leósdóttir, asta.lara.leosdottir@fjr.is, gsm 847-6437

Maríanna Jónasdóttir, marianna.jonasdottir@fjr.is, gsm. 862-0014

A. Snævar Guðmundsson, snaevar@fastrik.is, gsm. 861-5428

 

Samþykktir fyrir Árnessjóðinn

1. gr.

Heiti, varnarþing og heimili

Sjóðurinn heitir Árnessjóðurinn. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík. Árnessjóðurinn er sjálfstæður lögaðili sem ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eigum sínum og er ekki rekinn í ágóðaskyni.

2. gr.

Markmið og hlutverk

Hlutverk Árnessjóðs er að taka við orlofsframlögum frá ríkissjóði og ráðstafa á þann hátt að sjóðfélagar megi njóta orlofs. Fjármunum sjóðsins má verja til eftirfarandi verkefna:

·         Sjóðurinn á og rekur orlofshúsnæði og leigir út til sjóðfélaga.

·         Sjóðurinn styrkir sjóðfélaga til að njóta orlofsgistinga vegna ferða hér á landi eða erlendis.

Sjóðurinn getur samið um aðra orlofsmöguleika fyrir sjóðfélaga.

3. gr.

Form og aðild

Samkvæmt úrskurði kjararáðs frá 30. júní 2014 skal ríkissjóður greiða 0,30% af launum þeirra sem kjararáð ákvarðar laun fyrir í sérstakan orlofssjóð. Í þennan sama sjóð hefur síðan verið ákveðið að greiða orlofsframlag vegna þeirra sem kjararáð ákveður laun fyrir, þeirra sem fjármála- og efnahagsráðherra ákveður laun, þeirra sem eru utan félaga samkvæmt lögum og þeirra sem forsætisnefnd Alþingis ákveður laun fyrir. Rétt á aðild að sjóðnum eiga þeir sem þessir úrskurðir eiga við um og sem greitt hefur verið fyrir í sjóðinn.

4.gr.

Tekjur

Tekjur sjóðsins eru sérstakt gjald sem ríkissjóður greiðir af launum félagsmanna, vaxtatekjur svo og tekjur af rekstri orlofshúsa.

5.gr.

Sjóðsstjórn

Fjármála- og efnahagsráðherra skipar stjórn sjóðsins. Sjóðsstjórn skiptir sjálf með sér verkum. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri, fjárhag og eigum sjóðsins. Hún skal móta og þróa starfsemi sjóðsins í samræmi við markmið hans. Sjóðsstjórn setur almennar úthlutunarreglur og tekur ákvarðanir í vafatilfellum. Úthlutunarreglur skulu endurskoðaðar að lágmarki árlega og breytingar á þeim kynntar á heimasíðu sjóðsins.

Reikningsár sjóðsins er almanaksárið og ársreikningur skal endurskoðaður af Ríkisendurskoðun.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti, 24. mars 2015

 

f.h.r.

Gunnar Björnsson

Stefanía Sigríður Bjarnadóttir

Innskráning

Vinsamlega athugið að aðeins er hægt að panta á vefnum með því að skrá sig inn.

Innskrá

Árnessjóðurinn

Árnessjóðurinn
Arnarhvoli við Lindargötu
101 Reykjavík
Kt. 490181-0169
arnessjodurinn@isl.is

Sigfan ehf. © 2016 Allur réttur áskilinn.